Færsluflokkur: Menning og listir

Við ekki tala góður íslenska hérna, III.

Meira úr Geysisferð:  Í minjagripaversluninni ætluðum við að kaupa litla víkingahjálma úr plasti fyrir litlu strákana okkar.   Þegar móðir mín borgaði fyrir hjálmana komst hún að því að afgreiðslustúlkan talaði enga íslensku.  Það vildi svo til að móðir mín talar ágæta ensku og því var þetta ekkert mál.  Stúlkan var víst frá Litháen og ekkert illt um hana að segja.  Þetta vekur þó upp nokkrar spurningar:  Er ástandið í íslenska ferðamannaiðnaðinum þannig að flytja þurfi inn vinnuafl frá Austur-Evrópu?  Hvar búa útlendingar sem starfa þarna?  Kannski á tjalsvæðinu?  Tounge  Reyndar veit ég ekki hvort þetta var einangrað dæmi eða hvort Íslendingar eru í minnihluta á meðal starfsmanna.

Sjálfsagt hefði verið hægt að finna einhvern íslenskumælandi ef þörf hefði verið á og líklegast er mikill meirihluti þeirra sem versla í minjagripaversluninni við Geysi útlendingar, þannig að það er kannski ekkert athugavert við þetta fyrirkomulag.  Samt finnst mér það einhvern veginn hálf-kyndugt að þurfa að tala ensku til að versla á Íslandi.


Við ekki tala góður íslenska hérna, II.

Meira af skiltamálum:  Um þarsíðustu helgi fór ég með fjölskylduna upp að Geysi í Haukadal.  Þegar við nálgumst staðinn þá sé ég skilti í vegkantinum.  Á því stendur "Tjalsvæðið Geysi".  Ég er ekki að skálda þetta!  Þetta var áprentað málmskilti, svipað þeim sem merkja götunöfn í höfuðborginni, þannig að ég vona að fengist hafi góður afsláttur eins og af flugvélarmerkingunni.


Við ekki tala góður íslenska hérna, I.

Nýlega fór ég með fjölskylduna í stutta heimsókn til Íslands.  Þar bar fyrir sjónir ýmislegt sem mér þótti heldur miður að sjá í málnotkun og þvíumlíku.  Mun ég reyna að tuða svolítið yfir því hérna, og þá líður mér vonandi betur!

Þegar við fórum um borð í vél Icelandair (það má víst ekki kalla það Flugleiðir lengur) í Baltimore sáum við trjónu vélarinnar aðeins úr fjarlægð.  Hins vegar sá ég nafn vélarinnar vel úr landganginum í Keflavík.  Vélin okkar bar heitið "Guðríður Þorbjarnardóttir".  Nema hvað það hafa kannski ekki verið Íslendingar sem skelltu þessu nafni á trjónuna.  Síðari hlutinn (föðurnafnið) hófst nefnilega á litlu þorn-i ("þ" í stað "Þ") og eð-in voru bara "d" sem einhverju ólögulegu striki hafði verið skellt yfir.  Ég ætla bara að vona að þeir Flugleiðame... afsakið... Icelandair-menn hafi fengið sæmilegan afslátt af þessu illa unna verki.

 Í bakaleiðinni gladdist ég þó yfir því að þeim hafði tekist að stafa nafn Leifs Eiríkssonar rétt!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband